Saturday, 30 August 2008

Glasgow calling

Jæja, hvern hefði grunað að stelpan myndi láta verða af því að opna bloggsíðu fyrir búsetutíma sinn í Glasgow... ekki mér allavega! Sjáum þó til hversu vel mér gengur að skrásetja atburði lífs míns hér á þessa síðu. Það á eftir að koma í ljós.

Nú eru liðnar rétt rúmar 2 vikur síðan við mæðgur yfirgáfum land og þjóð, en ferð okkar byrjaði þó á smá fríi í Köben. Þar vorum við í 4 daga og gistum í góðu yfirlæti hjá Heiðu, Gaua og litlu drengjunum þeirra tveimur.
Veran þar var ósköp afslöppuð, nutum bara lífsins með Heiðu og fjölskyldu, fórum á Bakken og skemmtum okkur í tívolítækjum og á ströndinni sem þar er og skelltum okkur í stuttan túr í hestvagni. Nú svo kíktum við náttúrulega aðeins í bæinn, í dýragarð og tilheyrandi.
Við fórum í æðislegan brunch hjá Bjarna og Brittu og hittum þar líka Davíð og Juliu. Það var yndislegt að hitta þau öll sömul og við skemmtum okkur konunglega í þeirri heimsókn. Tvíburarnir eru náttúrulega með frábærustu mönnum sem fyrirfinnast og Ronja dýrkar þá gjörsamlega. Þau þrjú æfðu stórkostlegt sýningaratriði fyrir okkur eldri stelpurnar og sýndu við mikinn fögnuð. Í atriðinu mátti meðal annars sjá flug Ronju, strákana leika styttu og Ronju galdra 2 ískyggilega líka bræður undan rúmteppi... Stórkostlegt atriði alveg hreint!
Svo kíktum við í kaffi til Ingibjargar, sem var ofsalega yndælt og voru Ronja og Tobias rosa góðir vinir og léku sér saman eins og englar.

Frá Köben héldum við til Dublin, því þar þurftum við að millilenda. Þar fórum við inn í borgina og Guðný Björk, fyrrum bekkjarfélagi minn úr HÍ tók höfðinglega á móti okkur. Við röltum aðeins um með henni, fengum okkur að borða og sáum örlítið af borginni. Ronja var reyndar svo útkeyrð eftir allt ferðalagið að hún sofnaði fram á borðið á veitingastaðnum og varð að fá pizzuna í nesti á leiðinni heim...
Þó að við höfum ekki séð mikið af Dublin, verð ég að segja að hún kom á óvart. Ég hélt að ég væri að koma til stórborgar, en upplifunin var líkari því að vera í smábæ. Húsin þar eru lág og gömul, göturnar mjóar og mikið af rónum... Þar virðist heldur ekki vera neinn stór miðbæjarkjarni. Allt þetta gerði borgina bara mjög krúttlega - ja nema kannski rónarnir...

Á miðvikudagskvöldið 20.ágúst vorum við svo lentar í Glasgow. Penelope var svo yndisleg að sækja okkur á flugvöllinn og þar sem Nic, sem síðast var að nota íbúðina hennar Söru, tókst ekki að koma lyklunum til Penel áður en við mættum á svæðið, var Penel búin að redda okkur gistingu hjá Kevin og Max. Þar gistum við s.s. fyrstu nóttina og sváfum vel, ég hef aldrei vitað Ronju sofna eins hratt - í orðsins fylgstu merkingu sofnaði hún s.s. um leið og hún lagði höfuðið á koddann! Um hádegi daginn eftir sótti Penel okkur og keyrði okkur að sækja lyklana og svo í íbúðina hennar Söru.

Við notuðum fyrstu 4 dagana til að koma okkur fyrir, kaupa það sem vantaði og reyna að koma reglu á lífið - matartíma, svefntíma og þannig. Við fórum reyndar í Garnetbank Primary School á föstudeginum, til að sækja um skólavist fyrir Ronju. Þar var mér tjáð að við þyrftum að bíða í nokkra daga eftir að hún gæti byrjað, en þó mun styttra en ég hafði átt von á. Nokkrum tímum seinna, þegar Ísland var um það bil að mala Spán í handboltanum, um mínúta eftir af leiknum og ég með tárin í augunum af spenningi og stolti, hringdi konan frá skólanum og sagði að skvísan gæti bara byrjað strax á mánudaginn (s.s. sl. mánudag - 25.ág.) Við vorum auðvitað ægilega glaðar yfir því. Þá helgina fórum við og keyptum skólabúning fyrir skvísuna, skólatösku, blýanta og pennaveski og tilheyrandi. Það var voðalega spennandi og gaman.

Ronja ætlaði aldrei að geta sofnað á sunnudagskvöldið, fyrir spenningi yfir fyrsta skóladeginum, en vaknaði þó hress og glöð á mánudagsmorgunn og þvílíkt til í að fara í skólann. Hvað hún var sæt og krúttleg í skólabúningnum, með skólatöskuna á bakinu! Mamman var náttúrulega að rifna af stolti og næstum með tárin í augunum (þegar barnið er komið í skóla minnir það mann auðvitað á eigin aldur...). Ég hafði fussað dáldið yfir þessum skólabúningareglum, þó ég skilji vel og sé alveg hlynnt því að þeir séu notaðir, mér finnst bara asnalegt að troða litlum krökkum í óþægilegar skyrtur og skikka stráka til að vera með bindi og stelpur til að vera í pilsum. Svo slaknaði nú á mér þegar ég komst að hvað þetta er í raun líbó. Í fyrsta lagi mega stelpur vera í pilsum, skokkum eða buxum. Maður getur valið nokkurn vegin hvers lags flíkur maður hefur börnin í, bara að þau séu í réttum litum. Engar skyrtur eru í þessum skóla, heldur bara ljótir gulir pólóbolir. Stelpurnar mega vera í sokkabuxum í hvaða lit sem er og eins þurfa þau ekki endilega að vera alltaf í pólóbolnum. Svo þetta er bara voðalega krúttlegt.

Nú nenni ég ekki að skrifa meira í dag, Edda Rún er í Glasgow og við hittumst áðan en ég ætla að kíkja með henni og fleirum á lífið í kvöld. Skrifa meira fljótlega.