Thursday, 30 October 2008

Óhappagenið lætur á sér kræla og Ronja orðin rappari

Jæja, þá finnst mér að ég ætti að skrifa eitthvað. Það er náttúrulega búið að vera brjálað að gera og mér finnst ég ekki hafa haft neinn lausan tíma fyrir blogg, msn, skype, síma eða neitt slíkt. Þannig að mér líður dáldið eins og ég sé búin að missa sambandið við Ísland.
Nú svo tókst mér að næla mér í flensu, var alveg ónýt í skólanum á þriðjudag og var svo heima hundveik í gær og er enn heima í dag. Aðeins skárri, en samt ennþá drulluslöpp. Ég er að reyna að bæta úr þessu sambandsleysi við landið mitt og landa mína með því að blogga, vera skráð inn á msn og horfa á endursýningu á handboltaleiknum síðan í gærkvöldi (gleymdi að horfa á hann í gær).
Hlynur (meðleigjandi minn og bekkjarfélagi heima á Íslandi fyrir þá sem ekki vita) er líka búinn að vera veikur en var að skríða aftur í skólann í dag. Svo það kæmi ekki á óvart ef hún Ronja mín yrði næst, eða Helga.

Við Ronja fórum með bekknum mínum á fótboltaleik á mánudagskvöldið. Þetta var bara leikur í einhverri svona lítilli deild held ég, samt örugglega í svipuðum gæðum og 1.deildin heima. Annað liðið sem var að keppa var Arthurlie sem er lið Barrhead, bæjarins sem við erum að vinna verkefni í í skólanum. Arthurlie spilaði illa í fyrri hálfleik en rifu sig upp í þeim seinni og unnu 3-2.
Nú að sjálfsögðu þurfti óhappagenið mitt að láta á sér kræla mjög fljótlega í leiknum. Við stóðum til hliðar við annað markið og í einni sókninni var boltanum dúndrað útaf og hvað haldið þið???? Jú, jú auðvitað hafnaði hann beint í bringunni á mér! Svo skaust hann bara aftur inn á völlinn og þeir héldu áfram að spila. Þetta var ekkert smá högg og ég var alveg aum í bringunni um kvöldið, en ég var ekkert stórslösuð svo þetta var bara mest fyndið. Engu að síður vorum við mjög heppnar í óheppninni, því um 1-2 mín áður hafði ég haldið á Ronju og þá var höfuðið á henni akkúrat í sömu hæð og boltinn hæfði mig í bringuna!

En þetta fór allt vel og var rosa stuð. Ronja skemmti sér alveg konunglega og var gjörsamlega í essinu sínu. Hún var svo hress og fyndin og skemmtileg og bræddi hjörtu allra í bekknum. Þau voru alveg dolfallin yfir henni og fannst hún algjört æði. Hún sló um sig með einhverri ensku og svo tók hún einhverja í íslensku tíma. Svo alveg upp úr þurru þá kreppti hún hnefann, sló honum í bringuna og setti svo hendina út með 3 putta út (þumal, vísi og löngutöng) og sagði: "WORD!" Alveg eins og alvöru rappari! Það var alveg ógeðslega fyndið og sló gjörsamlega í gegn!!! Ég veit ekki hvar hún lærði þetta!

Læt þetta nægja í bili, skrifa kannski bara meira á eftir fyrst ég er heima...

Thursday, 16 October 2008

Í sambandi við umheiminn á ný

Sæl öll sem nennið að lesa. Einhverjir hafa kvartað undan þessari bloggleysu hjá mér - sem er bara gott, því það þýðir að ég er ekki að skrifa fyrir "tómum augum" eins og maður segir á góðri íslensku. En hér er ég komin aftur, endurnærð eftir erfitt netfrí.
Það er reyndar tæp vika síðan við fengum netið loks í hús (og heimasíma), en það er líka búið að vera mikið að gera.

Eins og þeir sem þekkja mig vita, þá er ég einstaklega lagin við að hafa mikið að gera og hlaða á mig allt of mörgum verkefnum og ég hef ekki látið deigan síga í þeim efnum þrátt fyrir búferlaflutningana. Það sem er þó slæmt í því sambandi er að hér í Glasgow er sólarhringurinn mun styttri en í stórborginni Reykjavík. Jæja nú hafa víst margir hugsað: "Nei Adda Rut, vertu ekki svona misgáfuð kona, 24 klst eru alltaf 24 klukkustundir hvar sem er í heiminum!" En mín rök fyrir þessari staðhæfingu minni eru þau að þó 24 klst séu alltaf 24 klst, þá gera vegalengdir það að verkum að stundirnar 24 styttast. Þetta hljómar óttalega vitlaust þegar ég les þetta upphátt... Allavega, bottomlínan (ég er sko búin að live so long í útlöndum sko að ég bara forget the Icelandic language you know) er sú að það tekur svo langan tíma að ferðast á milli staða að það verður miklu minni tími eftir til að gera allt annað en sitja í lest eða strætó eða labba um allt. Það var það sem ég vildi segja.

Svo hef ég komist að því að ég er orðin dáldið gömul og þarf minnsta kosti 9 tíma nætursvefn til að lifa daginn af án 5 bolla af kaffi... Ekki gott. Sérstaklega ekki þar sem megnið af bekkjarfélögum mínum eru á aldrinum 18-21.

Í stuttu máli gengur vel. Það er fullt að gera í skólanum hjá mér, en það er líka rosalega gaman þar og ég er búin að læra fullt og á eftir að læra enn meira. Skrifa meira seinna um hvað ég er nákvæmlega að gera þar.

Ronja er ofsa dugleg, hún er farin að skilja miklu meira í enskunni, þó hún tali ekki mikið. Hún er búin að vera í fríi þessa viku, nokkurs konar miðsvetrarfrí (þau kalla það "october-week" hér) og því er Helga búin að vera með hana allan daginn. Þær eru búnar að sækja dansnámskeið í vikunni og leikhóp (play-group), sem er í boði hjá einhvers konar "ÍTR" Glasgowbúa og hafa skemmt sér konunglega. Ronja alveg elskar þessa danstíma - verst að þeir eru ekki í boði nema bara þessa viku held ég. Ætla samt að athuga það betur.
Hún er orðin ansi fær á píanóið þessi elska, ótrúlegt hvað hún er fljót að ná þessu, þvílíkt tónlistargen sem ræður ríkjum í þessu barni! Já.. ég var kannski ekki búin að blogga um þetta áður, eða hvað? Hún Ronja er s.s. að læra á píanó. Hún fer ca. 1x í viku (stundum sjaldnar útaf frídögum sem hafa komið upp) og kona sem heitir Anca kennir henni. Frábær stelpa sem er í mastersnámi í RSAMD (sami skóli og ég er í). Anca er yfir sig hrifin af Ronju og hæfileikum hennar og segist aldrei hafa hitt 5 ára barn sem hefur svona gott tóneyra og svona mikla hæfileika. Í fyrsta tímanum bað Ronja um að fá að heyra hvernig Anca getur spilað og um leið og Anca varð að bón hennar, sagði hún að hún hafi aldrei lent í þessu áður - að svona ungt barn hafi áhuga á að heyra hana spila.
Ronja er ekkert allt of hrifin af að gera tónstiga og fingraæfingar, en það er allt í lagi, við förum bara rólega í þetta og pössum (ég og Anca) að ýta ekkert á hana, svo hún missi ekki áhugann. Í síðasta tíma byrjaði Anca að kenna henni do-re-mí lagið úr Sound of Music og mín dama er bara búin að ná því strax! Reyndar með vinstri, en hægri kemur! Þar sem hún er örvhent getur verið dáldið erfitt að fá hana til að spila með hægri en það er engin ástæða til að vera of ýtinn með það frekar en annað.

Ég ætla að láta þetta nægja í bili, þarf að fara að sofa. Ég læt ekki líða eins langt á milli blogga næst, það er loforð!