Thursday, 30 October 2008

Óhappagenið lætur á sér kræla og Ronja orðin rappari

Jæja, þá finnst mér að ég ætti að skrifa eitthvað. Það er náttúrulega búið að vera brjálað að gera og mér finnst ég ekki hafa haft neinn lausan tíma fyrir blogg, msn, skype, síma eða neitt slíkt. Þannig að mér líður dáldið eins og ég sé búin að missa sambandið við Ísland.
Nú svo tókst mér að næla mér í flensu, var alveg ónýt í skólanum á þriðjudag og var svo heima hundveik í gær og er enn heima í dag. Aðeins skárri, en samt ennþá drulluslöpp. Ég er að reyna að bæta úr þessu sambandsleysi við landið mitt og landa mína með því að blogga, vera skráð inn á msn og horfa á endursýningu á handboltaleiknum síðan í gærkvöldi (gleymdi að horfa á hann í gær).
Hlynur (meðleigjandi minn og bekkjarfélagi heima á Íslandi fyrir þá sem ekki vita) er líka búinn að vera veikur en var að skríða aftur í skólann í dag. Svo það kæmi ekki á óvart ef hún Ronja mín yrði næst, eða Helga.

Við Ronja fórum með bekknum mínum á fótboltaleik á mánudagskvöldið. Þetta var bara leikur í einhverri svona lítilli deild held ég, samt örugglega í svipuðum gæðum og 1.deildin heima. Annað liðið sem var að keppa var Arthurlie sem er lið Barrhead, bæjarins sem við erum að vinna verkefni í í skólanum. Arthurlie spilaði illa í fyrri hálfleik en rifu sig upp í þeim seinni og unnu 3-2.
Nú að sjálfsögðu þurfti óhappagenið mitt að láta á sér kræla mjög fljótlega í leiknum. Við stóðum til hliðar við annað markið og í einni sókninni var boltanum dúndrað útaf og hvað haldið þið???? Jú, jú auðvitað hafnaði hann beint í bringunni á mér! Svo skaust hann bara aftur inn á völlinn og þeir héldu áfram að spila. Þetta var ekkert smá högg og ég var alveg aum í bringunni um kvöldið, en ég var ekkert stórslösuð svo þetta var bara mest fyndið. Engu að síður vorum við mjög heppnar í óheppninni, því um 1-2 mín áður hafði ég haldið á Ronju og þá var höfuðið á henni akkúrat í sömu hæð og boltinn hæfði mig í bringuna!

En þetta fór allt vel og var rosa stuð. Ronja skemmti sér alveg konunglega og var gjörsamlega í essinu sínu. Hún var svo hress og fyndin og skemmtileg og bræddi hjörtu allra í bekknum. Þau voru alveg dolfallin yfir henni og fannst hún algjört æði. Hún sló um sig með einhverri ensku og svo tók hún einhverja í íslensku tíma. Svo alveg upp úr þurru þá kreppti hún hnefann, sló honum í bringuna og setti svo hendina út með 3 putta út (þumal, vísi og löngutöng) og sagði: "WORD!" Alveg eins og alvöru rappari! Það var alveg ógeðslega fyndið og sló gjörsamlega í gegn!!! Ég veit ekki hvar hún lærði þetta!

Læt þetta nægja í bili, skrifa kannski bara meira á eftir fyrst ég er heima...

1 comment:

Unknown said...

gaman að heyra nýjar fréttir af ykkur... vona að veikindin séu búin:) Kveðja frá öllum í Skipasundi 30