Æi hvað ég er löt að blogga. Þið fyrirgefið mér vonandi því þið vitið hvað ég er duglegð við að vera upptekin!! Og kann ekki mikið að slaka á....
En jæja. Það er svo margt sem ég gæti bloggað um að ég veit ekki hvar á að byrja.
Jú Glasgóvskir strætóbílstjórar eru hentug byrjun. Takið eftir að ég skrifaði ekki "góð" byrjun, því þó að sumir þeirra séu hinir yndælustu, þá eru allmargir þeirra langt frá því að vera góðir... Nei þeir eru nefnilega meira og minna snaróðir í skapinu, fúllyndir og ekki með vott af þjónustulund. Ég hef orðið vitni af nokkrum miður skemmtilegum uppákomum í kringum þessa starfsstétt og heyrt af öðrum.
Hér eru nokkur dæmi:
* Þú þarft að veifa strætó frá stoppistöðinni ef þú vilt að hann stoppi fyrir þér. Hann keyrir samt oft framhjá - bara svona ef hann er í þannig skapi!!
* Eins og almennt þekkist í strætókerfum, þá þrýstir maður á bjölluhnapp til að gefa til kynna að maður ætli út á næstu stoppistöð. Stundum bara nenna þeir ekki að stoppa þar og hleypa þér bara út á næstu - sem er stundum langt í burtu!
* Um daginn var ég að bíða eftir strætó en hann var stopp í umferðaröngþveiti bara rétt hjá stoppistöðinni. Þá sá ég að inní strætónum var maður að rífast við vagnstjórann. Farþeginn var orðinn æfur af reiði, því vagnstjórinn vildi greinilega ekki opna dyrnar og hleypa honum út, fyrr en hann væri kominn nákvæmlega á stoppistöðina (sem var nokkrum skrefum frá), þrátt fyrir að strætóinn væri alveg stopp í umferðinni.... Farþeginn tryllist að lokum og byrjaði að reyna að rífa hurðina upp með handafli - með misjöfnum árangri. Á endanum komst vagninn að stöðinni og þar opnaði vagnstjórinn hurðina og maðurinn rauk út æpandi fúkyrði sem ekki er vert að hafa eftir og sparkaði svo í nærstadda veggi og ljósastaura. Vagnstjórinn lét þetta greinilega á sig fá svo um munaði og var afar fúll í skapi (svosem skiljanlegt, en þetta var ekki öðrum farþegum að kenna!). Heill her af fólki var að fara að taka þennan strætó (enda "peak-hour" - s.s. kl eitthvað um 18), svo röðin var löng. Ég komst inn og svo sé ég að hann lokar hurðinni bara á miðja röðina!! Kona sem kom síðust inn æpti á hann og gargaði, því einhver sem var með henni var skilinn eftir úti! Hún heimtaði því að fá að fara frá borði, en vagnstjórinn keyrði bara af stað og bar fyrir sig að vera 10 mínútum á eftir áætlun!!!! Að lokum hleypti hann konunni út á næstu ljósum, því hún öskraði svo mikið!
* Síðasta dæmið sem ég tek um strætóbílstjóra að þessu sinni varðar okkur mæðgur beint og hefði getað farið illa- en gerði það samt ekki!
Sko, maður þarf að vera rosa snöggur að koma sér að dyrunum eftir að maður hringir bjöllunni, því þeir bíða sko ekkert eftir að fólk komi sér út. Ef þú ert ekki tilbúin(n), þá missirðu bara af þinni stoppistöð!
Við Ronja vorum s.s. á leiðinni út úr strætó, við vorum tilbúnar á réttum stað og vorum við það að fara út um dyrnar, þegar vagnstjórinn LOKAR!!! og Ronja akkúrat í hurðinni! Ég henti mér á eftir henni á milli hurðanna, svo ég myndi lenda á milli í stað hennar, og öskraði heil ósköp að vagnstjóranum á meðan, svo hann opnaði dyrnar strax aftur. Dyrnar náðu ekki að lokast, sem betur fer, en það munaði ekki nema nokkrum sentimetrum að barnið hefði orðið á milli. Ég snéri mér að vagnstjóranum á leiðinni út og gaf honum reitt og skilningslaust augnarráð... og hvað fékk ég til baka?? GLOTT!!!!!!!!! Þú kremur næstum því 5 ára gamalt barn með strætóhurð OG ÞÚ GLOTTIR!!!! Já.... ég varð dáldið reið...
Já, svo sáu Haffi og einhver (hann býr hér líka, kærasti Önnu Leu) um daginn að strætóbílstjóri keyrði af stað þegar gamall maður var annað hvort að fara út úr strætó eða reyna að komast inn í strætó. Gamli maðurinn datt í götuna á milli strætósins og gangstéttarbrúnarinnar og lenti hálfur undir strætónum. Bílstjórinnn tók ekki eftir neinu og stoppaði ekki fyrr en fullt af fólki var æpandi og berjandi í hliðina á strætónum og hann var næstum búinn að keyra með dekkin yfir blessaðan gamla manninn!
Nóg um þessa strætóbílstjóra...
Ég borða allt of mikið af snakki, þó mér finnist það ekki einu sinni gott!! Ég held ég hafi borðað meira af snakki á þremur mánuðum hér en ég hef gert samanlagt alla ævi! Enda er bara alls staðar snakk hér í þessum litlu hentugu pokum og Bretar eru flestir límdir við annan endann á svona snakkpoka. Ósjálfrátt fer maður að taka þátt í þessum kúltúr og kaupir sér "einn í nesti". Enda hefur það skilað sér í dágóðri bumbu sem hangir á mér framanverðri....
Ronja er búin að vera lasin í 3 daga. Hún var með rosalega háan hita á mánudag og aðfarnótt þriðjudags, ég skildi samt ekkert í því hvað hún mældist með lágan hita, því hún var svo sárlasin greyið. Í dag var hún svo orðin hitalaus og þá gerði ég tilraunir á mælinum... Kom í ljós að hann mælir um 1,5 gráðum undir raunverulegum hita... Svo barnið var með um 39,5 gráðu hita í fyrrinótt.. greyið litla ekki furða að hún hafi verið svona lasin. Hún er þó öll að braggast núna og vildi ólm fara í skólann í morgun. Ég leyfði það auðvitað ekki... en hún bakaði með Helgu í staðin á meðan ég var í skólanum. Vonandi verður hún orðin nógu brött til að fara í skólann á morgun.
Hún er alltaf að verða betri og betri í enskunni. Þar síðasta föstudag var Hrekkjavaka og Ronju var boðið í Hrekkjavökupartý með Cieru vinkonu sinni og mömmu hennar. Hún valdi sér búning (fyrir afmælispeninga frá Unnsu frænku c",) ), alveg hrikalega fínn býflugubúningur (sjá mynd). Það var þvílík spenna að vera boðið í partý og hún skemmti sér alveg konunglega. Það var farið í alls kyns leiki og hún tók fullan þátt í öllu. Þegar ég spurði Jen, mömmu Cieru hvort hún hafi verið þæg og góð þá sagði hún að allt fullorðna fólkið í partýinu (fjölskylda hennar) hafi talað um hvað Ronja væri ofsalega þæg og örugg með sig!!! Ég var auðvitað rífandi stolt af unganum mínum, sem er líka algjör hetja!!!
Með þeim orðum skal þessari bloggfærslu ljúka. Þangað til næst.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
4 comments:
Mikið er býflugan sæt!
hvað er að þessum strætóbílstjórum spyr ég bara??
vá hvað það hlýtur að hafa verið gaman að fara í halloween partý ronja ;) ekki nokkur spurning að þú ert sætasta býflugan:)
heyri svo í ykkur vonandi um helgina :* kv. seisa
Hæ hæ
Meiri lætin í þessum strætóbílstjórum, úff ég hefði öskrað á þá :/
Ronja ekkert smá dugleg að skella sér í partý, rosa fín í búningnum :) Gaman að heyra hvað þið skemmtið ykkur vel í Glasgow, njótið þess í botn á meðan þið eruð úti. kveðja frá Íslandi þar sem snjóar og snjóar akkúrat núna þessa stundina, ætli ég þurfi ekki að skafa áður en ég fer heim úr vinnunni úfff
hafði það gott, knús
Guðrún vinkonufrænka
hæ addan mín, vildi bara senda þér kossa og knús. Kemur þú heim um jólin? Sakna þín og vildi að þú skrifaðir oftar á bloggið.... Anna.
Post a Comment