Jæja gott fólk,
Þá er kominn tími til að segja frá einhverju fleiru. Rétt í þessu tókst mér loksins að tengjast netinu í gegnum mína eigin tölvu, svo nú ætti ég að geta sett einhverjar myndir inn á þetta blogg. Síðasta vika fór í alls konar stúss, leita að íbúð, kynnast Helgu, au pairunni okkar betur, versla og versla meira allt sem vantaði eins og handklæði, nærbuxur og fleira nýtilegt. Einnig fór ég í skólann minn og ræddi við kennara og aðra starfsmenn (eða konur reyndar) sem ég þurfti að hitta þar og svona eitt og annað í þeim dúr. Svo reyndum við bara að eiga nokkuð eðlilegt heimilislíf, elda kvöldmat og fara að sofa á skikkanlegum tíma.
Af skólanum er það að segja að ég hef, ásamt einni starfsdömu skiptiskólans míns (Royal Scottish Academy of Music and Drama eða RSAMD), verið að reyna að finna hóp eða listamanneskju til að vinna með í svokölluðu "Placement", sem er nokkurs konar starfsnám. Ég vil helst vinna með einhverjum sem er að fást við leiklist með heyrnarlausum eða táknmálstúlkað leikhús og þó slíkt sé að finna hér, er ekki mikið um það - frekar en annars staðar! Þó hefur mér tekist að fá viðtal hjá Deboruh Andrews, sem er yndæliskona sem er í forsvari fyrir hóp sem kallar sig Solar Bear (sjá: http://www.solarbear.org.uk/). Þessi hópur hefur meðal annars gert leiksýningar þar sem notast er við táknmál og túlka og haldið námskeið fyrir heyrnarlaus ungmenni. Eitt slíkt námskeið er einmitt að fara af stað á miðvikudaginn og er hugsanlegt að ég geti fengið að vinna eitthvað með þeim í því. En það kemur allt í ljós eftir fundinn sem ég fer á, einmitt á miðvikudaginn.
Af íbúðarmálum er þetta að frétta:
Er búin að finna geggjaða íbúð (sjá myndir af henni: http://fineholm.co.uk/public/display-property.aspx?propertyid=2552 slóðin virkar kannski ekki mjög lengi, því þetta verður líklegast tekið út af netinu þegar við erum fluttar inn í íbúðina). Einn galli er þó á "gjöf" Njarðar (segir maður það ekki?) en hann er sá, að ef maður getur ekki fengið einhverja manneskju, sem er í fullri vinnu og búsett í Bretlandi, til að vera ábyrgðarmaður fyrir leigunni, þá þarf að borga 6 mánuði fyrirfram! Já og 6 mánuðir er einmitt sá tími sem ég er að leigja íbúðina. Þar að auki þarf að borga jafnvirði mánaðar í tryggingu og svo um 15.000 kall í einhvern kostnað (held að það sé þjónustugjald fyrir leigumiðlunina). Allt er þetta náttúrulega fullt af samningum og orðum sem ég skil ekki, svo ég er síspyrjandi og dáldið eins og fáviti... En þetta er allt að koma.
Ég s.s. er að bíða eftir að redda smá málum hjá bankanum og LÍN, til að geta borgað minn part í þessu, en tilvonandi meðleigjendur mínir hafa þegar greitt sinn skerf. Svo á næstu dögum gætum við verið fluttar í slotið.
Svo er magnað hvað þessi heimur er alltaf lítill! - Þessi íbúð sem við erum að fara að flytja í (ef allt gengur að óskum), er einmitt nákvæmlega sama íbúð og Sara bjó í á fyrsta árinu sínu hér í Glasgow!! Já og fyrir þá sem voru ekki vissir hvort þeir ætluðu að koma í heimsókn:
PANTIÐ ÞIÐ MIÐANN NÚNA! ÞAÐ ER POOLBORÐ Í STOFUNNI!!!
Ronja er dugleg í skólanum, búin að læra nokkra stafi og hljóð til viðbótar - náttúrulega allt á ensku. Eftir fyrsta daginn sagði hún með svona kellingalegan hissasvip á andlitinu: "Veistu það mamma... Ég bara SKILDI EKKI NEITT!! Á 5.degi í skólanum byrjaði hún að reyna að tala og kennarinn hennar, hún Miss Duffy, var ofsalega ánægð með það og dáldið hissa líka held ég! Klár stelpan! Nú svo er hún búin að eignast nokkra vini í skólanum líka og ber helst að nefna þau Kiera og Joe. Hún og Kiera virðast perluvinkonur, sem er frábært. Merkilegt samt hvað þessir Bretar eru slakir á hollustunni... Krakkarnir koma margir með snakk og súkkulaði í nesti í skólann og það þykir bara normal! Enda er ekki horfandi uppí 70% þjóðarinnar, allt stellið gult, brúnt, svart og brunnið. Algjört ógeð!
Ronjan mín er þó stundum leið og sagði við mig í gærmorgun að hún vildi flytja aftur heim, því hún saknaði heimilisins okkar á Íslandi og kisa okkar.... Þetta getur verið pínu erfitt - og ekki bara fyrir litlar næstum 5 ára telpur, þó það séu bara liðnar 2 vikur... En það venst og verður rosa gaman, sérstaklega þegar hún Sara kemur og skólinn byrjar fyrir alvöru og Ronja verður farin að skilja eitthvað meira í ensku.
Tala nú ekki um hvað verður betra þegar Ronja greyið fær dótið sitt sem afi sendi okkur í kössum frá Íslandi - ef það kemur þá einhvern tíman!! Við erum s.s. búin að bíða eftir dótinu okkar í næstum 2 vikur. Ég er búin að hringja margoft í póstinn út af því og loksins komst ég að því í dag að þessir tveir bögglar eru búnir að fara fram og til baka um Glasgow og voru á endanum sendir aftur til Íslands!! Annar þeirra er kominn til Íslands, en hinn er á leiðinni þangað. Skýringin sem er gefin er: "undeliverable - unsufficient / incorrect address". Algjörlega óþolandi, því ég veit að það er rétt adressa á pökkunum og það var aldrei reynt að koma með pakkana hingað, þar sem við erum og enginn miði borist frá póstinum. Ég er orðin nett pirruð á þessu og vonast bara til að dótið okkar glatist ekki algjörlega í þessari vitleysu.
Jæja, nóg um þetta. Fullt af beinhörðum upplýsingum og skýrslugerð um síðustu viku... Reyni að hafa þetta skemmtilegra og meira spennandi næst. Og kannski styttra - ég kann ekkert að blogga en er augljóslega vel æfð í ritgerðarskrifum!!
Þar til næst.
ps. Fleiri myndir á www.myspace.com/addarut í möppunni "Lönd undir fótum"
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
5 comments:
Hæ Adda - Hæ Ronja!
Lára
Mikið eru þið duglegar. Það tekur á að koma sér fyrir á nýjum stað þar sem allt er nýtt, jafnvel tungumálið. Vona að það gangi vel hjá ykkur næstu daga. Knús frá öllum í Skipasundi30
Hæ Lára!
Knúsaðu alla í skólanum frá mér ég sakna ykkar strax!
Takk Maren mín, ég sé að þú ert orðinn loyal lesandi strax! Eins gott að halda þetta blogg út!
Hæ elskurnar! Gott að geta fylgst með ykkur. Ronja mikið svakalega ertu dugleg stelpa og sæt í skólabúningnum þínum, mamma þín hlýtur að vera að rifna úr stolti yfir þér. Hafið það sem allra allra best kyssiði og knúsiði Helgu frá mér kv, Obba
Post a Comment