Ég var að lesa bloggið hjá Rakel frænku og sá að hún hafði sett inn gullkorn frá Ronju sem ég sagði henni frá. Ég var nú búin að segja allnokkrum frá því, en set það þó hér inn fyrir hina og annað gullkorn líka.
Um 14.ágúst 2008:
Við vorum alveg að fara til Danmerkur, þar sem við gistum hjá Heiðu og fjölskyldu. Annar sonur hennar heitir Skarphéðinn. Ronja var í eitthvað fúlu skapi yfir flutningunum og öllum þessum breytingum og segir við mig:
Ronja: "Mamma, ég vil ekki fara til Danmerkur og vera hjá þeim"
Adda: "Hjá hverjum?"
Ronja: "Heiðu og Skartgripnum!"
2. september 2008
Við Ronja og Helga vorum að koma úr bíói, þar sem við fórum að sjá hina bráðskemmtilegu Mamma mia. Ronja var hrifin af myndinni, en fór í "skyndifýlu" þegar við komum út og neitaði að fara með okkur heim. Við vorum eitthvað að reyna að dekstra hana þegar hún hengir sig á handrið við gönguljós og segir:
"Ég vil ekki koma með ykkur heim. Ég ætla bara að vera hér og vorkenna sjálfri mér!"
Við Helga áttum svo bágt með okkur, fórum í algjört hláturskast en máttum náttúrulega ekki láta litla púkann sjá það...
Í kvöld byrjaði ég í "placement", sem er þetta starfsnám sem ég hef talað um eitthvað áður. Ég fæ s.s. að fylgjast með leiklistarnámskeiði fyrir heyrnarlaus ungmenni og mér stendur meira að segja til boða að stjórna eitthvað líka, koma með einhver verkefni eða eitthvað. Í þessu verð ég á hverju miðvikudagskvöldi til 17.desember. Þær sem stjórna eru Deborah, sem vinnur hjá Solar Bear, sem er svona lítið atvinnuleikhús og Natalie sem er táknmálstúlkur. Þær vinna samt saman eins og þær séu báðar með námskeiðið, þ.e.a.s. Natalie vinnur ekki sem hefðbundinn túlkur í þessu verkefni, hún er ekki hlutlaus og hún túlkar ekki bara, heldur segir krökkunum líka til. Krakkarnir sem eru þarna nota mjög mismunandi táknmál - sumir nota það nánast ekki, aðrir nota alveg BSL (breskt táknmál), enn aðrir notast við táknaða ensku (tákn með tali) og svo allt þar á milli. Þannig að samskiptin þarna geta verið dáldið flókin, en ganga samt einhvern vegin fullkomlega upp.
Um breskt táknmál lærði ég það í kvöld, að það er mjög mismunandi eftir því hvaðan fólk er. Meira að segja tölurnar eru ekki eins hér í Glasgow og í Lanarcshire, sem er hálftíma héðan! Og svo eru enn önnur tákn notuð í Edinborg (um 50 mín héðan)! Svo það er flóknara en ég hélt að læra smá í "bresku táknmáli" - það er ekki sama breskt eða breskt...
Ég fæ líklegast að vera með Natalie í einhverjum öðrum leikhúsverkefnum, sem gæti verið mjög spennandi. Hún vinnur mikið fyrir Þjóðleikhúsið hér, túlkar þar leiksýningar. Það er ekkert að gerast í því eins og er, en hugsanlegt að það fari eitthvað að gerast.
Voða spennt yfir því.
Nú banka- og LÍN mál voru afgreidd í dag, svo í fyrramálið mun ég hringja í leigumiðlunina og vonandi fæ ég að koma þangað bara strax á morgun til að borga og fá lykilinn að íbúðinni.
Ég læt vita hvernig það fer.
Ætla að henda mér í bólið, er búin að vera eitthvað hálfslöpp, eins og ég sé að verða lasin. Nenni því ekki og þá held ég að lýsi og svefn sé besta lækningin!
Tek 4 lýsi og svo í rúmið.
Góða nótt :)
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment