Ronja greyið vildi ekki fara í skólann í morgun og sagði (svo gáfulega eins og alltaf - eða það finnst mömmunni allavega...):
"Ég vil ekki fara í skólann af því að það tala allir ensku þar og ég skil ekki neitt. Og ég get aldrei sagt neitt við þau!"
Ég fékk hana að lokum til að fara með mér og hún virtist orðin sátt við að fara. Þegar í skólann kom, vildi hún svo ekki kveðja mig. Kiera vinkona hennar tók yndislega á móti henni, tók í höndina á henni og strauk henni blíðlega þegar hún sá að Ronja vildi ekki skilja við mig. Kiera spurði svo einlæglega:
"Does Ronja speak Polish?" (Talar Ronja pólsku!!) hahahha mér fannst það svooo fyndið, greinilega vön því að heyra að hér séu pólverjar sem tala ekki ensku.
Nú svo fór ég alla leið inn í skólastofuna með Ronju og spjallaði aðeins við hana þar. Þetta var óvenju erfið kveðjustund og Ronja vildi alls ekki sleppa mér og ég kom engu tali við hana. Ég náði að róa hana aðeins, en hún byrjaði samt að gráta um leið og ég labbaði í burtu.
Á ganginum mætti ég konu, sem er starfsmaður í skólanum - ég veit samt ekkert hvað hún heitir eða hvað hún gerir og hún sagði eitthvað svona við mig:
"Æi, þetta er erfitt að skilja þau eftir svona, en hún jafnar sig" Ég sagði henni að þetta væri ekkert mál heima, bara svo erfitt hér því hún skilur enga ensku. Við ræddum þetta eitthvað, ég sagði henni hvað Ronja sagði í morgun og fór svo bara að grenja!! Úpps..... Konan var þó hin yndælasta og hughreysti mig, sagði að Ronja myndi ná enskunni fljótt og þetta yrði allt í lagi. Ég þakkaði henni fyrir og þurrkaði tárin á leiðinni út.
Kemur manni stundum á óvart hvað maður getur verið viðkvæmur...
Þar til seinna.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
1 comment:
æi ég fékk bara sting í hjartað að lesa þetta, getur verið svo ótrúlega erfitt að skilja við elskurnar sínar. Annars eru fjölgunarfréttir úr Skipasundinu, von á 3 krílinu í feb/mars:) Kveðja, Maren
Post a Comment